Staðbundin óveður við Kvísker í Öræfum

Staðbundin óveður við Kvísker í Öræfum eru rannsökuð með athugun á mælingum, greiningu á lofthjúpnum og hermun á völdum óveðrum. Í ljós kemur að óveðrin, þ.e. þegar vindur í hviðum fer yfir 35 m/s á veðurstöðinni við Kvísker, eru tvennskonar. Í fyrsta lagi í vestanátt þegar hvasst er í öllu veðrahvolfinu en þau óveður er algengari en hin tegund óveðranna þar sem hvöss norðanátt er í neðri hluta veðrahvolfsins en hægari vindur ofar. Hermun á versta óveðrinu af fyrri tegundinni bendir til að þyngdarbylgjur myndist í straumnum ofan við Öræfajökul, og valdi mjög staðbundnu ofsaveðri austanmegin Öræfajökuls. Eins bendir ýmislegt til að bylgjurnar nái nokkuð langt út á hafið til austurs frá Öræfajökli. Þá er veðurstöðin við Kvísker mjög nærri því að vera undir niðurstreyminu í fyrstu bylgjunni en þar verður einmitt hvassast og hviðurnar öflugastar. Hermun á óveðri af seinni tegundinni gefur til kynna að við samspil loftstraumsins og Vatnajökuls myndist straumstökk, eða þyngdarbylgja sem ofrís og brotnar, hlémegin jökulsins. Við þær aðstæður getur einmitt orðið mjög hvasst og snarpar hviður undir straumstökkinu. Þá er hvasst víðar um Suðausturlandið heldur en einvörðungu við Kvísker en óveðrið nær þó ekki mjög langt frá hlíðum fjallanna. Meginmunur á þessum tveimur tegundum óveðra virðist þó felast í þeirri vegalengd sem mesta óveðrið nær fráfjalla- toppum og niður fjallshlíðarnar hlémegin. Í rannsókninni er gerð tilraun til að tengja þá vegalengd við uppruna loftsins, stöðugleika og þykkt jaðarlagsins. Vatnajökull hefur mikil áhrif á veðurfar í Skaftafellssýslum og ætla má að með hlýnandi veðurfari og minnkandi umfangi jökulsins verði tölu- verð breyting á þeim áhrifum. Hér er því jafnframt gerð frumtilraun til meta mögulegar breytingar á styrk norðanóveðranna en svo virðist sem styrkur óveðranna við Kvísker minnki lítillega en að afar miklar breytingar verði á mynstri loftstraumsins sunnan Vatnajökuls og einkum sunnan Öræfajökuls.